15.11.2009 | 23:18
HEIÐARLEIKI, VIRÐING og RÉTTLÆTI
Ég átti þess kost í gær að sitja Þjóðfundinn 2009 og vera lóðs á borði B22.
Þessi atburður hafði mikil áhrif á mig og ég er viss um að hann snart flesta sem þarna voru. Á fundinn komu 1500 þátttakendur flestir valdir með slembiúrtaki úr þjóðskrá en einnig forsvarsmenn valdastoða innan þjóðfélagsins. Ég hafði örlitlar áhyggjur af þessari blöndu að hinn almenni Jón Jónsson og hin almenna Jóna Jónsdóttir yrði kveðin í kútinn af atvinnufólkinu í þrætupólitíkinni. Vissulega var það reynt þó flestir sýndu karakter. Aðferðafræðin sem notuð var við borðin 162, sem hvert var skipað 9 þátttakendum, var þó þannig að hún tryggði sem best jafnræði.
Fyrst var leitað eftir gildum. Allir þátttakendur skrifuðu þau gildi sem þau vildu að væru ráðandi í íslensku samfélagi. Rétt í þann mund sem vinnan var að fara af stað kom kvennakór inn í salinn og gekk um á milli borða og söng ættjarðarlag. Söngurinn var fallegur og hrífandi og sló skemmtilegan samhljóm í brjóstum þátttakenda.
það kom mér á óvart hvað fólkið var vinnusamt. Það einbeitti sér að því að skrifa á miðana og dauðaþögn ríkti í salnum. Fólkið var komið til þess að leggja sitt af mörkum til að hefja framtíðina. Að þessu loknu var farinn hringur eftir hring um borðið þar sem hver og einn lagði fram eitt gildi í einu og um þau spruttu umræður. HEIÐARLEIKI kom fyrstur og ég sá að flestir höfðu skrifað sama orð á miða hjá sér. Að lokum voru komnir tugir miðar á borðið og hver og einn kaus þrjá miða og þau þrjú atkvæðaflestu urðu gildi borðsins. Fljótlega var búið að fá fram gildi fundarins, HEIÐARLEIKI, VIRÐING og RÉTTLÆTI.
Vissulega má segja sem svo að þessi gildi endurspegli líðan fólks eftir síðustu ár. Hitt ber á að líta að öll eru þau líka klassísk. Réttlæti er til að mynda ein af fjórum megindyggðum Platons.
Þá kom að því að vinna að því að skilgreina meginstoðir samfélagsins. Ég hygg að þá hafi komið uggur að ýmsum frammámönnunum að tillögur voru lagðar fram og síðan var kosið um þær án þess að málið væri "rætt til hlítar". Hver og einn gekk út frá sinni eigin sannfæringu. Það má vissulega spyrja sig hvað sé sannara en sannfæring fólks.
Tvisvar á fundinum kusu þátttakendur málaflokka og hugmyndir og tvisvar mótaði hópurinn tuttugu orða lýsingu á niðurstöðum sínum. Við á borði B22 fengum umfjöllunarefnið FJÖLSKYLDAN, en fundurinn komst réttilega að því að einn af hornsteinum samfélagsins er einmitt FJÖLSKYLDAN. Eftir nokkra vinnu var setningin mótuð. Ef frá eru skilin börnin mín þá hef ég sjaldan verið stoltari af vinnu samverkamanna. Setningin var svona:
SAMFÉLAGIÐ STANDI VÖRÐ UM FJÖLSKYLDUNA OG HEIMILIN MEÐ ÁHERSLU Á ÖRUGGA RÉTTARSTÖÐU, FJÁRMÁL HEIMILANNA, SVEIGJANLEGAN VINNUTÍMA OG TENGSL KYNSLÓÐA (STÓRFJÖLSKYLDUNA).
Að loknum fundinum var tilfinningin góð. Eitthvað gott hafði gerst. Jafnvel einstakur atburður. Afurð fundarins varð til án átaka og með lýðræðislegum hætti. Það var enginn sem sigraði annan. Það var einginn meirihluti eða minnihluti. Það var engin stjórn eða stjórnarandstaða. Það var fólkið í landinu sem vann sem einn maður að ákveðnu takmarki og ég trúi því að flestir hafi farið til baka ánægðir með afraksturinn. Ég þakka því góða fólki sem kom að borði B22 og vann að miklum heilindum og atorku.
Ein stór spurning vaknaði: Er hér komin ný leið til þess að móta stefnu í þjóðfélaginu, stefnu sem hið þrískipta ríkisvald verður að taka tillit til?
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.