14.11.2008 | 13:12
Persónulegt uppgjör - horft til framtíðar
Hvað viljum við Íslendingar vera?
Það hefur verið erfitt að vega og meta ástandið í fjármálum þjóðarinnar undanfarna mánuði vegna skorts á upplýsingum. Á hverjum degi hafa komið fram misvísandi yfirlýsingar frá hagfræðingum við ýmsa merka skóla Nú er rykið eitthvað að setjast en mér er að verða ljóst að vandamálið er ekki hagfræðilegt. Það ristir mun dýpra.
Ríkisstjórnin hefur reynt að halda aðgreindri aðstoðinni frá IMF annars vegar og deilna vegna Icesave og annarra innlánsreikninga íslensku bankanna í útlöndum. Sú röksemdafærsla stenst ekki pólitískt.
Atgangur íslensku bankanna hefur verið svo tengdur nafninu Ísland að þó svo við viljum líta á málið sem vandamál banka sem eru einkahlutafélög og með takmarkaða ábyrgð þá stenst það ekki. Erlendir ráðamenn hafa einnig verið duglegir að tvinna þetta tvennt saman og hafa að sjálfsögðu íslensku neyðarlögin sem vopn í höndunum. Vandamál er því vandamál Íslands og íslensku þjóðarinnar allrar.
Fólk er lengi að fyrirgefa tapaðan einkasparnað. Það tekur ekki eitt ár eða tvö heldur mannsaldur og nafn Íslands er nátengt þeirri hugsun. Hatrið á Íslandi sem spretta mun í kjölfar tapsins er ekki bundið við lögfræði, hagfræði eða pólitík. Það er einfaldlega bundið því að fólk átti pening í banka. Íslendingar hirtu þennan pening og neituðu að borga hann til baka. Svo einfalt er það.
Nú spyr ég þann sem þetta les. Vill hann sem íslendingur ganga um Oxford stræti í London eða Strikið í Kaupmannahöfn. Vill hann njóta gestrisni Hollendinga og njóta þýsku Alpanna hugsandi það að í þessum löndum eru fullt af fólki sem hata Íslendinga vegna þess að þeir stóðu ekki við skuldbindingar sínar. Þeir tóku við peningum og borguðu þá ekki aftur. Ég svara NEI. Ég vil geta eftir fimm eða tíu ár farið um Evrópu og hugsað: Við fórum djúpt en við stóðum við allar okkar skuldbindingar.
Að sjálfsögðu eigum við að láta alla sparifjáreigendur í íslensku bönkunum sitja við sama borð! Með þeim hætti einum getum við hreinsað nafn þjóðarinnar og nafn landsins og haldið reisn okkar. Nú kann einhver að spyrja hvernig það sé hægt.
Ég hlustaði á Björgúlf Guðmundsson í kastljósi í gær. Hann fullyrðir að eignir gamla Landsbankans standi undir þessum greiðslum. Sú skoðun kemur heim og saman við upplýsingar annars staðar. Auðvitað hafa þessar eignir fallið verulega í verði en það hafa engar aðrar upplýsingar komið fram sem hönd er á festandi. Eitthvað mun þó lenda á íslenskum skattgreiðendum.
Hvernig hafa forsvarsmenn okkar staðið sig?
Útrásarvíkingarnir, sem fengu banka í hendurnar bjuggu meðvitað til stærstu eignarbólu sem dæmi eru um og notuðu þá "eign" sem myndaðist við það til að lána sjálfum sér pening. Þann pening notuðu þeir til að stækka bóluna og sölsa meira undir sig. Getum við verið sammála um það að þessir menn hafi brugðist?
Bankarnir þurftu að dæla fé inn í bóluna og styðja við viðleitni útrásarvíkinganna (eigendanna) að blása út bóluna. Þeir stóðu sig vel í því. Þeir soguðu að sér sparifé landsmanna og sparifé frá Englandi, Hollandi, Norðurlöndum, Þýskalandi og víðar. Þeir gátu boðið háa vexti því bólan sogaði til sín fjármagn og lofaði góðu. Þegar mesta fjármálakrísa seinni tíma gekk yfir sprakk bólan. Bankarnir voru orðnir það stórir að bakland þeirra gat ekki stutt við þá. Það áttu yfirstjórnendur bankanna að vita. Getum við ekki verið sammála um að þeir hafi brugðist?
Seðlabanki og fjármálaeftirlit áttu að hafa eftirlit með bönkunum og vera bakhjarl bankanna. Í skjóli þeirra fengu bankarnir að stækka umfram allt sem skynsamt getur talist. Engar upplýsingar eru til um að þeir hafi slegið á hendur bankanna. Hafa þessar stofnanir ekki brugðist?
Ríkisstjórnin hlustaði ekki á bjöllurnar. Ótal merki voru um að ástandið væri óeðlilegt. Merki sem yfirstjórnendur landsins hefðu átt að vita af og bregðast við. Það var ekki gert fyrr en á síðustu stundu. Mér sýnist að skoðanakannanir bendi til að fólk telji ríkisstjórnina hafa brugðist í þessu efni.
Alþingi setti þær leikreglur sem notaðar eru í þjóðfélaginu. Alþingi og alþingismenn eiga að sjá lengst allra fram á veginn. Á Alþingi á að veljast fólk sem hefur framtíðarsýn og gáfur til að móta reglurnar, setja landslagið. Það virðist ekki hafa verið gert. Evróputilskipun virðist hafa farið í gegn án þess að Alþingismenn huguðu að litlu Íslandi og sæju til þess að Seðlabanki væri sá öryggisventill sem hann á að vera. Er rétt að segja að Alþingismenn hafi brugðist? Brugðust ekki kjósendur? Höfðu kannski kjósendur ekki úr öðru að velja?
Hvað þarf að gera?
1. Við þurfum að einhenda okkur í það að fá óháða aðila t.d. aðila í Evrópu eða utan Evrópu sem á ekki hagsmuni að gæta til að miðla málum milli Íslenskra stjórnvalda og ríkja sem eiga hagsmuni að gæta og þar þurfum við Íslendingar að kannast við skyldur okkar. Við eigum að fá svigrúm til að gera eins mikið úr eignum bankanna og kostur er t.d. með því að fá lán frá viðkomandi þjóðum í upphafi.
2. Við eigum strax að gefa sterkleg skilaboð út til þeirra sem tapað hafa sparifé sínu að við ætlum að gera allt sem í okkar valdi er til að standa við skuldbindingar okkar þannig að enginn eigi að þurfa um sárt að bind. Þessi skilaboð eiga að koma beint frá Íslandi og beint frá íslenskum aðilum. Þessi skilaboð þurfa að vera sterk og þau þurfa að vera sönn.
3. Hvað sem hverjum finnst eða kann að hafa álitið þá er aðeins ein leið til núna. Við verðum að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Þetta er leið sem aldrei hefur hugnast mér en það er þó betra að vera í öruggu skjóli Evrópusambandsins en að vera á lítilli kænu lengst út á Atlandshafi þar sem enginn virðist kunna að róa.
4. Við eigum að taka upp Evru eins fljótt og auðið er. Krónan sem dugað hefur okkur í næstum hundrað ár hefur skilað hlutverki sínu. Það var gott að geta notað krónu þegar við höfðum aðeins fiskinn í sjónum til að lifa á og hægt var að nota gengisflökt til að stilla hagkerfið eftir því hvernig gaf og hvaða verð fékkst fyrir fiskinn. Þannig gátum til að mynda komist hjá atvinnuleysi. Nú er sá tími liðinn. Erlend viðskipti er grundvöllur þjóðfélagsins. Skiljum við krónuna með þakklæti.
5. Við þurfum að rýma til í stofnunum sem sofið hafa á verðinum.
6. Við þurfum að rannsaka "útrásarævintýrið". Þá er ég ekki að tala um kattaþvott eða smárannsókn. Alþingi þarf að setja á stofn rannsóknarnefndir eins og til stendur að fá þeim þau völd sem þarf. Í þessar nefndir þarf að velja fólk sem í hjarta sínu hefur þrá til að fá fram sannleikann. Þarna er engin þörf á fólki sem vill stinga hníf í bak pólitískra andstæðinga eða baða sjálfan sig í sviðsljósinu á kostnað annarra. Alþingi þarf að styðja vel við þessa rannsókn með lagasetningu ef þörf krefur. Bankaleynd á að afnema ef með þarf. Alþingi þarf að hafa getu til að hnýsast í þau veski sem mögulega hafa að geyma leifar af sparnaði annarra.
7. Stórefla þarf getu saksóknara og skattrannsóknarstjóra til að rannsaka öll mál sem snúa að eignamyndun og tekjumyndun innan "útrásarfyrirtækjanna". Þar þarf að lyfta hverjum steini. Persónuleg neysla einstaklinga á kostnað þessara fyrirtækja á að skattleggja. Hagnaður sem hefur orðið til með flóknum fjármagnshreyfingum á að skattleggja. Refsa þarf fyrir hugsanleg lögbrot.
8. Það þarf að fara fram endurskoðun bæði innan Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks en að mínu viti eru þetta einu flokkarnir sem geta fleytt okkur inn í nýja tíma. Sérstaklega þarf Sjálfstæðisflokkurinn að líta í spegil. Hann þarf að komast út úr afneitunarstiginu og horfa til framtíðar. Þessir flokkar hafa örfáa mánuði til að taka til. Í vor á að kjósa! Ef ESB aðildarmenn komast til valda innan Sjálfstæðisflokks verður án efa sérframboð ESB andstæðinga - og öfugt. Það verður bara að hafa það. Það kæmi mér ekkert á óvart að Samfylkingin myndi leiða næstu ríkisstjórn. Það þarf bara að tryggja eitt. Að hægri flokkur með ESB aðild á stefnuskrá geti orðið samstarfsaðili Samfylkingar. Það væri slæmt ef Sjálfstæðisflokkur í afneitun eða Vinstri grænir kæmust í þá stjórn.
9. Setja þarf fram skýrar kröfur um eign okkar á fiskimiðunum. Þar þurfum við að halda vel á spilunum. Þetta hefur verið haldreipi þeirra sem hafa verið á móti aðild og með réttu. Samningsaðstaða okkar þarf að vera þannig að við getum hafnað aðild ef ekki nást nægilega góðir
samningar. Höfum það í huga að þrátt fyrir stjórnleysið hér þá höfum við þó getað komist hjá algjöru hruni fiskistofna síðustu áratugi. Sá árangur er sterkt tromp.
10. Við þurfum strax og hægt er að hefja kerfisbundna uppbyggingu atvinnuvega. Við skulum hafa það hugfast að í dag er vöruskiptajöfnuður hagstæður. Við flytjum meira út en við flytjum inn. Við eigum sterkan sjávarútveg, sterkan orkuiðnað, sterk útflutningsfyrirtæki og góða ferðaþjónustu. Menntun er góð og við eigum gott land til að byggja í. Við getum haldið áfram að vera "crazy Icelanders" en bara í hófi.
Við getum horft með bjartsýni fram á veginn. Komum okkur upp úr hjólfarinu sem leiddi okkur út í fenið. Stöndum við skuldbindingar okkar og spýtum í lófana. Framtíðin hefst í dag.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.